154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

715. mál
[17:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og skal viðurkenna það að ég var ekki búinn að gá að þessu í fjármálaáætlun, enda lagði ég fyrirspurnina fram áður en hún birtist. En það er gott að heyra að það séu bundnar vonir við að í endanlegri útgáfu fjármálaáætlunar eins og hún kemur út úr fjárlaganefnd verði búið vel um uppbyggingu heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Við vonum bara að það endi vel hjá nefndinni vegna þess að þetta er mjög mikilvægt og ég held að sagan sé farin að segja okkur að núverandi fyrirkomulag og það fyrirkomulag sem hefur lengst af gengið ágætlega gengur ekki lengur í því umhverfi þar sem er allt annars konar samkeppni um húsnæði en var. Þegar ég var þarna í skóla fyrir 30 árum þá var ekkert mál að nota Hótel Þóristún undir heimavistina vegna þess að túristarnir voru þar bara í júní, júlí, ágúst þegar nemendurnir voru heima í heyskap. Nú er öldin önnur og öll þessi hótel eru í notkun allt árið um kring þannig að rúmin eru bara ekkert laus. Þess vegna er eðlilegt að stíga það skref að byggja heimavist sem þjónar þeim tilgangi einum, sem þjónar því hlutverki að vera heimavist fjölbrautaskólans á lóð hans eins og hæstv. ráðherra nefndi.

Mig langar aðeins að stelast til að spyrja hæstv. ráðherra þar sem hann er nú barnamálaráðherra ofan á allt annað og á reglulega í samtölum við börn og ungmenni, vegna þess að þegar við erum að fjalla um samgönguáætlun í umhverfis- og samgöngunefnd þessa dagana þá fáum við ítrekað þau skilaboð frá ungmennum að almenningssamgöngur um allt landið þjóni ekki þeirra þörfum. Þegar kemur að framhaldsskólunum erum við auðvitað með skólabíla til að dekka sitthvorn endann á deginum en almenningssamgöngur á landsbyggðinni, svo við tölum bara um þetta tilvik á Suðurlandsundirlendinu, (Forseti hringir.) eru bara í skötulíki. Þurfum við ekki að fara að blása til einhverrar sóknar þar þannig að frelsi þeirrar kynslóðar sem þarf að stóla á þennan samgöngumáta sé tryggt, frelsi hennar til að athafna sig í samfélaginu?